Hvað er hveitikím?

image

Hveitikím er kornmeti sem notað er í síauknum mæli hér á landi bæði við bakstur og í matargerð. Sífellt fleiri þekkja kosti þess og hversu rosalega hollt það er. Ég smakkaði fyrst hveitikímbrauð hjá mömmu minni fyrir nokkrum árum og kynntist því svo enn betur eftir að hafa farið á fráhaldsnámskeið hjá MFM í júní 2015. Í dag er hveitikím mjög mikilvægur partur af mínu mataræði.

Hveitikímið er mjög næringarríkt og meðal næringarríkustu fæðutegunda sem þekkjast. Hveitikím inniheldur rúmlega tuttugu næringarnefni og magn þeirra í hverju grammi er meira en í nokkru öðru grænmeti eða korni. Hveitikímið samanstendur fyrst og fremst úr lípíðum, flóknum kolvetnum, prótíni, og trefjum. Hveitikím er jafnframt mjög ríkt af E-vítamíni, fólínsýru, magnesíum, þíamíni (B-vítamín), fosfórk og síkni.

Það má gera ráð fyrir að u.þ.b. sömu næringarefni fáist úr 10 g af hveitikími og úr 80 g af grænmeti. Hveitikím er mjög kaloríuríkt. Það eru um 370 kcal í 100 g af hveitikími.

Vegna þess hversu næringarríkt hveitikímið er þá er það stundum lagt að jöfnu við inntöku á grænmeti og það er t.d. gert á námskeiðum hjá MFM og hjá þeim sem eru í GSA fráhaldi.

Athugið að hveitikím er ekki glútenlaust. Það inniheldur glúten-protein og hentar því ekki þeim sem eru með óþol fyrir glúteni.

 

Ferskt og þurrkað hveitikím

 

img_20160228_190127.jpg

Hveitikímið er fjarlægt við framleiðslu á flestum tegundum hveitis því að olíurnar í kíminu geta þránað og stytt geymsluþol hveitisins. Kímið er því aukaafurð í hveitisframleiðslu en í frá því að kímið varð eftirsótt vegna næringareiginleika sinna hefur það verið selt bæði ferskt og þurrkað.

Hægt er að kaupa bæði ferskt og þurrkað hveitikím hér á landi t.d. frá framleiðendum á borð við Himneskt, Sólgæti, Natu Food o.fl.

Ferskt hveitikím þarf að geyma í kæli til að koma í veg fyrir að það þráni. Þurrkað hveitikím er dekkra en það ferska og geymist lengur en eftir að umbúðirnar hafa verið opnaðar skal alltaf geyma þurrkað hveitikím í kæli.

Það er talsverður munur á eiginleikum ferska og þurrkaða hveitikímsins. Ég prófaði þurrkað hveitikím þegar ég var í sumarfríi í Englandi því þarf var erfitt að verða sér út um ferskt hveitikím. Þurrkað hveitikím loðir ekki eins vel saman og það ferska og það er því erfiðara að baka úr því. Kímkökurnar mínar voru alla vega gjarnari á að molna og bragðið af þeim var aðeins öðruvísi, ekkert endilega verra en bara öðruvísi en ég var búin að venjast.

Það getur verið gott að kaupa þurrkað hveitikím ef t.d. maður býr langt frá verslunum þar sem hægt er að kaupa ferskt. Það geymist þá ágætlega í búri þar til það hefur verið opnað.

Hvernig má nota hveitikím

Það er hægt að nota hveitikím á mjög fjölbreyttan máta. Hér fyrir neðan eru nokkrar hugmyndir og svo eru fullt af  uppskriftum hér neðar á síðunni um hvernig nota má hveitikím við bakstur.

  • Í bakstur
  • Í staðinn fyrir brauðmylsnu í uppskriftum t.d. kalkúnafyllingu
  • Út á jógúrt og skyr
  • Í kjötbollur og kjöthleifa í stað kartöflumjöls
  • Út á ís og deserta
  • Sem morgunkorn með mjólk út á
  • Í drykki, blendinga og smúðís
  • Sem rasp fyrir steiktan fisk
  • Út í súpur

 

Bakað úr hveitikími

Hér fyrir neðan eru að finna uppskriftir og hugmyndir um hvernig nýta má hveitikím til að baka brauð, múffur, kryddkökur, pizzabotna og ýmislegt fleira.