Ég var farin að sakna þess að geta ekki fengið mér almennilega mexíkóska torillu og prófaði að gera pönnukökuna úr blómkáli í stað hveitiköku. Þetta var æðislegt og verður pottþétt eldað aftur fljótlega.
Tortilla úr blómkáli:
- 1/2 blómkálshaus
- 1 stórt egg
- Best á allt
- Herbamare salt
- Chilli explosion krydd
Ég byrja á því að hakka blómkálshausinn í matvinnsluvél þar til blómkálið er orðið að “grjónum”. Því næst set ég það í skál og inn í örbylgjuofn í 8 mínútur. Þegar búið er að hita blómkálið í örbylgjuofninum er það tekið út og sett í viskustykki og það er undið til að ná mesta vökvanum úr blómkálinu. Það gæti verið gott að láta blómkálið bíða aðeins og kólna svo auðveldara sé að vinda viskustykkið því það verður alveg brennandi heitt með blómkálinu í. Það er líka hægt að nota gúmmíhanska eða silikonhansa til að forðast hitann ef manni liggur voðalega mikið á.
Þegar mestum vökva hefur verið náð úr blómkálinu þá vigta ég 100 g af blómkáli í skál. Því næst brýt ég egg og píska það létt í annarri skál og vigta 30 g af eggi út í blönduna. Því næst krydda ég með þeim kryddum sem mér finnast passa. Næsta kaka er gerð á sama hátt þ.e. vigta næstu 100 g af blómkáli og blanda hinum helmingnum af egginu saman við (allt að 30 grömmum).
Því næst set ég bökunpappír á bökunarplötu og smyr hann léttilega með olíu. Ég mynda tortillur úr hvorri blöndu um sig á bökunarplötunni og skelli inn í 200°C heita blástursofn í ca. 20 míntútur.
Það passar mér að fá mér 2 tortillur í kvöldmat með 50 grömmum af nautahakki eða kjúklingi og fullt af grænmeti t.d. steiktum lauk, sveppum og paprikku og svo hráu salati, rifnum gulrótum, kúrbít og tómötum.
Fyrir sósu nota ég sykurlausa salsa sósu og gríska jógúrt sem ég hræri smá sætu saman við.