Aspassúpa (hveitilaus)

Ég átti dós af aspas sem ég var að vandræðast með. Mig langaði í aspassúpu en ekki auðvelt kannski að laga aspassúpu ef maður borðar ekki hveiti.

Ég prófaði að gera hveitilausa aspassúpu með því að nota sojahveiti í staðinn og það heppnaðist mjög vel.

Hveitilaus aspassúpa (2 skammtar):

  • 15g smjör
  • 20g sojahveiti
  • 100g mjólk
  • Safinn úr einni aspasdós
  • Aspas úr einni dós (260g vigtað)
  • 1 msk möluð graskersfræ
  • 1 msk möluð hörfræ
  • Grænmetiskraftur 1/2 tsk
  • Herbamare salt

Bræða smjörið í potti og blanda sojahveiti saman við með pískara. Bæta svo aspasvökvanum saman við smátt og smátt og svo mjólkinni.

Þykkja með möluðu fræjunum og smakka til með salti, pipar og grænmetiskrafti.

Bæta svo aspasinum út í.

Það fékkst svo mikil súpa úr þessu að ég varð að vigta hana og skipta þessu jafnt í tvær skálar/máltíðir.

Ég borðaði hin helminginn daginn eftir og þá var hún enn betri. Ég bætti 1dl af vatni úr í súpuna og maukaði hana með töfrasprota og reif svo lítinn bita (15g) af Old Amsterdam osti yfir. Það tók súpuna á næsta level.

Ein súpuskál:

  • Prótein alls: 52,5g
    • 10g sojahveiti
    • 50g mjólk (12,5g)
    • 15g harður ostur (30g)
  • Grænmeti: 130g aspas
  • Fita: 7,5g smjör

Það er hægt að borða súpuna með kímbrauði með áleggi eða salati með fetaosti til að borða upp í fullan skammt.