Svínabógur með bökuðu rótargrænmeti

Á aðfangadag vill ég helst hafa purusteik í kvöldmat og hún hentar mjög vel fyrir fólk í fráhaldi því hún er ekkert nema vel kryddað og hreint kjöt með fitu.

Það getur hins vegar verið smá trikk að elda purusteik rétt svo hún verði bæði safarík og með krispí puru.

Í ár prufaði ég að hægelda steikina á meðan við brugðum okkur í aftansöng í Bíldudalskirkju þar sem mamma var að messa.

Ég las ýmsar uppskriftir á netinu en ákvað svo að aðlaga eftir eigin höfði.

Grænmetið elduðum við í ofni í ca 50 mínútur áður en steikin fór í ofninn. Ég steikti líka sveppi á pönnu ásamt gulrótum.

Svínabógur með puru:

  • 2,5-3kg svínabógur á beini
  • Negulnaglar
  • Lárviðarlauf 
  • Gróft salt
  • Svartur pipar
  • Fínt salt
  • Best á allt kryddið

Ég keypti 2,65 kg svínabóg á beini í kjötborðinu í Nóatúni og þau voru svo góð að skera rendur í fituna til að undirbúa puruna.

Ég byrjaði á því að setja steikina á hvolf (fitan niður) í pott og helti köldu vatni ca 2,5 cm upp á steikina. Setti inn í 200°C heitan ofn með lokið á pottinum í 30 mínútur. 

Tók steikina úr ofninum og setti á bretti og kryddaði vel. Passaðu að núa salti vel í fituna og setti negulnagla og lárviðarlauf á við og dreif í raufarnar á fitunni. Sumar staðar þurfti ég aðeins að skera dýpra í fituna en það er ekkert mál eftir að búið er að elda fituna í vatnsbaði.

Síðan hellti ég nánast ollu soðvatninu úr ofnpottinum og setti steikina í pottinn með fituna upp og lokið á pottinn. Það er gott að hafa kannski 1-2 dl af vatni í botninum á pottinum til að viðhalda betur raka á meðan steikin er í ofninum.

Þvínæst eldaði ég steikina í 3 tíma á 150°C á blæstri með undir og yfirhita. Það var reyndar óvart – ég hefði líklega bara notað blástur ef ég hefði eldað í mínum eigin ofni. 

Eftir þriggja tíma eldun tók ég lokið af pottinum og setti á grillstillingu á ofninum til að ná purunni upp. Það tók bara nokkrar mínútur og mikilvægt að fylgjast vel með purunni til að hún brenni ekki. Mamma sá reyndar um þennan part því það er nauðsynlegt að þekkja ofninn sinn vel þegar maður notar grillið.

Ég mæli með því að opna út fyrirfram og vera viðbúinn því að reykskynjarinn láti heyra í sér þegar fitan byrjar að stikna. Best að líta á þetta sem gott próf á því hvort reykskynjarinn virki yfir höfuð :)

Sósa:

Soðið af steikinni nýtist sem hin besta sósa og vel hægt að nota hana beint úr pottinum. Mér finnst gott að setja smá kraft í hana og smá g-mjólk til að fá rjómakenndara bragð og bragðbæta með salti og svörtum pipar eftir smekk.

Leave a Comment