Í góðan pizzabotn þarf að lágmarki 40 g af hveitikími og oftast nota ég eins mikið hveitikím og ég get í botninn til að þurfa ekki að setja of mikið grænmeti á pizzuna. Pizzurnar mínar eru því oftast á bilinu 45-55 g af hveitikími og ég fæ mér gjarna pizzu í hádegismat.
Innihaldsefnin í botninn eru: hveitikím, sesam fræ, origanó eða eitthvað gott pizzakrydd og vatn.
Það er fljótlegast að forbaka pizzabotninn í örbylgjuofni áður en álegginu er raðað á pizzuna en það má líka gera í venjulegum ofni er örbylgjuofn er ekki til staðar.
Öllu innihaldi er blandað saman í skál og sett á disk sem þolir örbylgjuofn. Gott er að nota sleikju til að mynda hringlaga pizzabotn og ég reyni að hafa hann eins stóran og mögulegt er án þess að göt myndist í deigið. Svo krydda ég aftur með origano eða einhverju góðu pizzakryddi.
Deigið þarf 4-5 mínútur í örbylgjuofninum, fyrst 3-4 mínútur á annarri hliðinni og svo sný ég botninum við og baka í 1 mínútu í viðbót á hinni hliðinni.
Ef botninn er mjög blautur þegar hann kemur úr örbylgjuofninum þá þerra ég hann stundum með eldhúspappír.
Því næst er álegginu raðað á pizzuna og hún bökuð í venjulegum ofni í 10-15 mínútur við 200°C.
Pizzubotninn hér á myndinni er úr 45 g af hveitikími.