Núna þegar jólin og hátíðarnar nálgast þá hef ég verið að skoða leiðir til að aðlaga hefðbundna jólamatinn að mataræðinu með því að taka út allan sykur, korn og sterkju.
Ég gerði tilraun í gærkvöldi með fyllingu fyrir kjúkling/kalkún og þetta heppnaðist ágætlega. Mun klárlega gera fleiri tilraunir með þetta á næstu vikum til að ná þessu góðu fyrir jólin.
Kjúklingur:
Heill kjúklingur skolaður að innan og kryddaður eftir smekk. Ég nota alltaf Best á allt kryddið frá Pottagöldrum og bæti svo við fleiri kryddum eftir því í hvernig skapi ég er. Notaði líka Grillkryddið frá Pottagöldrum að þessu sinni.
Grænmetisfylling fyrir kalkún/kjúkling:
- Gulrætur – 4 meðalstórar
- 1 gulur laukur
- Sveppir – 1 askja
- Sellerístöngull
- Saxaður hvítlaukur – ég kaupi frosinn saxaðan hvítlauk í Bónus
- Sesam fræ – 2 tsk
- Oreganó – 1 tsk
- Best á allt kryddið – 1 tsk
- Herbamare salt
- Grænmetiskraftur – 1/2 tsk
- Hazelnut sykurlaust síróp frá Torani – 2 msk
- Smá vatn
Ég steiki allt grænmetið á pönnu upp úr smá olíu og smjöri. Kryddaði og setti pínu vatn á pönnuna til að leysa upp grænmetiskrafinn. Þeir sem borða ekki grænmetiskraft geta bara sleppt honum. Að lokum bætti ég við sírópinu til að fá smá hnetubragð.
Fyllingunni er troðið inn í fuglinn og kjúklingurinn er settur í ofnfat með loki. Ég set alltaf smá avókadóolíu í botinn á fatinu og smá yfir kjúklinginn sjálfan. Restin af fyllingunni setti ég í fatið til hliðar við kjúklinginn.
Allt eldað í ofnfatinu við 180°C í u.þ.b. klukkutíma.
Sósan:
Ég nota vökvann sem kemur í ofnfatið og sigta það í lítinn sósupott. Bæti svo smá sjóðandi vatni í það og salta og krydda eftir smekk ef þess þarf.
