Matarárinu sem er að líða verður ekki minnst með sérstökum söknuði. Ég átti almennt séð ekki gott matarár 2018, ég var ekki í fráhaldi en átti samt ágæta spretti inn á milli. Ég ákvað t.d. í byrjun árs 2018 að prófa Veganúar, sem var tekinn með trompi og hafði ýmis góð áhrif en samt ekki þau sem ég gerði mér vonir um. Ég fann enga stórkostlega breytingu á líðan, eins og gerist í fráhaldi. Ég kynntist hins vegar fullt af stórkostlegu grænmetisfæði og ýmsum valkostum við mjólkurvörur sem ég hef haldið áfram að nýta mér að einhverju leyti. Veganúar reynslan var skemmtileg og gekk vel og hefur orðið til þess að mig langar til að setja mér einhver krefjandi markmið fyrir janúar 2019 og byrja nýtt ár með nýjum takti.
Og þá liggur beinast við að stefna á fráhald á nýju ári. En eins og sannur matarfíkill þá á sama tíma og ég sakna þess að vera í fráhaldi þá fer heilinn í mér í algjört mótþróastreituröskunarkast og er ekki tilbúinn til samstarfs. Einn dagur í einu…ég veit.
Þegar ég les yfir uppskriftirnar hérna á síðunni minni þá fyllist ég stollti yfir þessum flotta mat sem ég hef útbúið í gegnum tíðina og ég vona svo sannarlega að hjálpi einhverjum og gefi hugmyndir af góðum mat í fráhaldi. Ég veit vel að sumar matarhugmyndirnar hér er henta ekki öllum í fráhaldi (tala við sponsorinn) en lykilatriðið fyrir mig er að þessi síða var sett upp til að hjálpa mér í mínu fráhaldi og ef ég þarf að breyta mínu fráhaldi til að það virki best fyrir mig þá mun þessi uppskriftarsíða breytast í takt við það. Það er áfram markmiðið að birta hér uppskrifir sem henta þeim sem eru í fráhaldi frá sykri, hveiti og einföldum kolvetnum.
Það eru margir skemmtilegir viðburðir framundan á árinu 2019 og ég vil vera í góðu standi líkamlega og andlega til að njóta þeirra sem best. Ég hef því sett mér það markmið að byrja árið á ketóáskorun í janúar og fara þar með í fráhald frá sykri, hveiti og einföldum kolvetnum og fylgja kenóvæntu mataræði allan mánuðinn. Það munu eflaust birtast einhverjar fráhaldsvænar uppskriftir því tengdu hér á síðunni á næstu vikum.
Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem hafa litið hér við eða fylgst með þessari vefsíðu kærlega fyrir lesturinn á árinu og senda ykkur mínar bestu óskir um gleðilegt nýtt og sykurlaust ár.
Kveðja,
Soffía